Annáll körfuknattleiksdeildar

Annáll körfuknattleiksdeildar

Síðastliðið ár hefur verið mjög viðburðaríkt hjá körfuknattleiksdeild Ármanns. Hér kemur stutt yfirferð um það helsta sem gerðist á liðnu ári.

Meistaraflokkur kvenna varð deildarmeistari í 1. deild kvenna tímabilið 2021-22. Stelpurnar voru frábærar allt tímabilið og lönduðu deildarmeistaratitli. Þær fóru svo alla leið í úrslit í skemmtilegri úrslitakeppni þar sem þétt var setið í Kennó á öllum leikjum. Tímabilið endaði í oddaleik en því miður tapaðist hann gegn sterku ÍR liði. Stelpurnar spila áfram í 1. deild þetta tímabilið, hafa sýnt góða takta í mörgum leikjum og eru í 6. sæti deildarinnar eftir 12 leiki. Þær eiga góða möguleika á að ná inn í úrslitakeppnina aftur og vonandi fáum við aftur spennandi úrslitakeppni í vor.

Meistaraflokkur karla tapaði ekki leik í 2. deild karla tímabilið 2021-22. Þeir höfðu algera yfirburði í deildinni og sigruðu Þrótt Vogum í úrslitaeinvígi síðasta vor. Þar með tryggðu þeir sér sæti í 1. deild karla. Þrátt fyrir að vera nýliðar í deildinni hafa strákarnir sýnt að þeir geta unnið hvaða lið sem er. Þeir eru í 7. sæti deildarinnar í lok árs og eiga líkt og stelpurnar fínan möguleika á að vinna sér sæti í úrslitakeppninni ef þeir spila vel á seinni hluta tímabilsins.

Starfsemi yngri flokka var mikil á síðasta ári. Við erum með lið í nær öllum aldursflokkum og gífurlegur fjöldi leikja var spilaður. Árangur liðanna var mjög góður enda er hann metinn í ánægju og framförum iðkenda. 10. flokkur drengja lék til úrslita í 2. deild Íslandsmótsins en tapaði þar gegn Þór Akureyri eftir góðan leik.

Stórir hópar krakka úr Ármanni tóku þátt í úrvalsbúðum KKÍ og fyrir jólafrí voru 9 iðkendur Ármanns valdir í æfingahópa yngri landsliða KKÍ. 

Körfuknattleiksdeild Ármanns er sú stærsta í Reykjavík og næst stærst á landinu öllu. Deildin hefur stækkað ört síðustu ár og bjartir tímar eru framundan í Laugardalnum enda mikill metnaður og áhugi fyrir körfubolta hér. Starfsemi deildarinnar er dreifð víða. Við erum með æfingar í Langholtsskóla, Laugarnesskóla, Laugardalshöll og Kennó. Einnig hefur körfubolti verið í frístund í Vogaskóla. Þetta haust hefur iðkendum fjölgað jafnt og þétt. Mest er fjölgunin hjá yngstu hópunum og hafa aldrei fleiri mætt á æfingar hjá 1. og 2. bekk eins og á þessari önn. Nýung hjá okkur í haust var að bjóða upp á æfingar fyrir leikskólahóp. Það hefur svo sannarlega slegið í gegn og stór hópur krakka hefur skemmt sér vel á æfingum í Laugarnesskóla á fimmtudögum alla haustönnina. Þetta mun halda áfram á vorönn og vonandi bætast fleiri í þann efnilega hóp.

Margt spennandi er framundan hjá okkur. Við munum halda áfram keppni í Íslandsmótum að sjálfssögðu en einnig erum við að stefna á æfingaferðir til Spánar með hópa í 8.-10. bekk. Það verður skemmtilegt verkefni sem við erum mjög spennt fyrir. Það fjölgar jafnt og þétt í iðkendahópnum en einnig í hópi þjálfara og sjálfboðaliða sem aðstoða deildina við að vaxa og dafna. Starf þeirra er gífurlega mikilvægt og það er ljóst að án þeirra væri ekki hægt að halda áfram. Innilegar þakkir til allra sem hafa hjálpað okkur í starfinu á síðasta ári.