Geggjaður árangur kraftlyftingadeildar þrátt fyrir aðstöðuleysi!!
Kraftlyftingadeild Ármanns átti hvorki meira né minna en 11 keppendur á Bikarmóti Kraft um helgina. Reyndar æfa nokkrir þeirra hjá Stjörnunni sem er nýbúin að fá nýja og glæsilega aðstöðu. Einnig æfa nokkrir hjá Breiðablik sem er nýbúið að fá nýja og glæsilega aðstöðu.Að sama skapi æfa nokkrir hjá KA sem er einnig nýbúið að fá nýja og glæsilega aðstöðu. Það er eins og maður greini eitthvað mynstur hérna.
Kvennaflokknum var algerlega rúllað upp. Lucie Stefanikova varð stigameistari kvenna með ótrúleg 106.3 stig! Hún keppti í -76 og beygði 202.5kg, bekkaði 110 og réttstöðulyfti 225. 537.5kg samanlagt og árangur á heimsmælikvarða. Til hamingju Lucie!
Arna Ösp Gunnarsdóttir varð næststigahæst í kvennaflokki. Hún tók nýtt Íslandsmet í hnébeygju -63kg flokki, 148kg. Hinar greinarnar voru eitthvað að stríða henni en hún tók 80 í bekk og 175 í réttstöðu. 403 samanlagt og gull í flokknum.
Hjalti Óskarsson var sólid að vanda í -74kg flokknum, 175-105-205=485 og silfur. Stöðugar smábætingar hjá Hjalta.
Máni Freyr Helgason sigraði í 83kg flokki með 210-130-245=585. Virkilega flottur árangur í fyrsta móti. Hann er fæddur 2003 og er því nokkur ár eftir í unglingaflokki.
Daði Þormóðs varð í þriðja sæti í -83 með 165-110-210=485. Sólid árangur í fyrsta móti. Hann er einnig fæddur 2003.
Í -93kg flokki voru þrír keppendur frá Ármanni.
Grímur Már Arnarsson varð í öðru sæti með glimrandi tölur, 205-152.5-242.5=600 og stimplaði sig rækilega inn í fyrsta móti. Hann er einnig fæddur 2003 og því í U23 flokki um sinn.
Logi Snær Gunnarsson er aðeins 16 ára og tekur stórstígum framförum. Hann tók 165-100-220=485 og á framtíðina fyrir sér, meira en ár eftir í drengjaflokki U18.
Magnús Dige tók 180-107.5-195=482.5. Planaðar bætingar í þriðju létu standa á sér í þetta sinn.
Í 105kg flokki keppti Hlynur Sigurðsson. Hann beygði 215 og átti góða tilraun við 230 sem dómarar álitu of grunna, bekkaði 127.5 en náði ekki bætingu. Svo fór illa því réttstaðan leið fyrir eitthvað jafnvægisleysi og Hlynur féll út.
Gunnar Pálmi 17 ára í 120kg flokki, keppti í þrílyftu í fyrsta sinn og tók 170-100-220=490. 180kg flott beygja var dæmd af vegna þess að hann skilaði af sér í flýti. Laga það. Gunnar á meira en ár eftir í drengjaflokki U18.
Í þungavigtinni keppti Þorsteinn Ægir Óttarsson og var satt að segja hrikalegur. Serían 312.5-197.5-287.5=797.5kg skilaði honum gulli í flokknum og lofar góðu fyrir alþjóðleg mót.
Allt í allt verður þetta að teljast afar góður árangur hjá Ármenningum þrátt fyrir aðstöðuvanda. Karlaliðið var í fyrsta sæti á stigum og kvennaliðið í öðru sæti.