
Reykjavíkurmeistaramót 11-14 ára
Reykjavíkurmeistaramót 11-14 ára var haldið í Laugardalshöll dagana 28.-29. apríl. Þar kepptu iðkendur úr öllum félögum í Reykjavík og Ármenningar mættu sterkir til leiks. Keppt var í fimmtarþraut og margir Ármenningar komust á verðlaunapall í stigakeppninni á meðan ennþá fleiri bættu persónulegan árangur í einni eða fleiri greinum.
Í flokki 11 ára pilta náði Vincent Alexander Slezak 2. sæti í stigakeppninni og hann bætti sig í öllum greinum nema hástökki. Í flokki 11 ára stúlkna var Birgitta Steinunn Arnórsdóttir í 1. sæti í stigakeppninni og Lóa Mercado Guðrúnardóttir í 3. sæti. Í flokki 12 ára pilta var Helgi Björnsson í 1. sæti í stigakeppninni og í öllum greinum en Jökull Hauksson var í 2. sæti í stigakeppninni og bætti sig í öllum greinum nema 60m hlaupi. Hjá stúlkum 12 ára var Ragna Tryggvadóttir í 2. sæti í stigakeppninni og Inga Þóra Gylfadóttir í 3. sæti. Í þessum flokki ber líka að nefna Guðrúnu Lind Garðarsdóttur sem tók 1. sætið í hástökki og bætti sig þegar hún stökk 1,40m. Í flokki 13 ára pilta varð Halldór Kossi Ange Tryggvason í 1. sæti í stigakeppninni og í flokki 14 ára stúlkna deildi Herdís Askja Hermannsdóttir 2. sætinu. Í þeim flokki ber líka að nefna Sigrúnu Lind Garðarsdóttur sem vann hástökkskeppnina og setti nýtt persónulegt met þegar hún stökk 1,46m.