Ármann með 2-0 forystu eftir sigur á Selfossi

Ármann með 2-0 forystu eftir sigur á Selfossi

Ármann sótti góðan sigur á Selfoss í kvöld. Þeir leiða því 2-0 í einvíginu og geta komist áfram í undanúrslit 1. deildar karla með sigri næsta föstudag í Laugardalshöllinni.

Ármann náði forystu snemma í leiknum og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Kristófer Breki var stórkostlegur í fyrri hálfleik. Hann tróð boltanum ítrekað og labbaði í gegnum vörn Selfyssinga að vild. Hann hitti úr 10 af 13 skotum utan af velli og var 3 af 3 í vítum. Í hálfleik var hann kominn með 24 stig.

Selfyssingar léku ágætlega og náðu oft að nýta sér mistök Ármenninga sem hélt þeim í seilingarfjarlægð. Ármann leiddi með 8 stigum í hálfleik.

Fljótlega í seinni hálfleik meiddist Kristófer Breki þegar hann var að keyra á körfuna. Það virtist sem hann hefði snúið upp á hné. Hann fór af velli og lék ekki meira. Þetta atvik hafði greinilega áhrif á lið Ármanns sem lék illa það sem eftir var þriðja leikhluta. Selfyssingar gengu á lagið og náðu að jafna metin þegar lítið var eftir af leikhlutanum en Ármann náði að auka muninn aftur og Cedric Bowen setti flotta flautukörfu þegar þriðji leikhlutinn kláraðist.

Í fjórða leikhluta náði Ármann sér svo aftur á strik. Jaxson Baker var að hitta vel og Frosti Valgarðsson steig vel upp þegar Kristófer fór útaf. Ármann náði að auka muninn og sigldu að lokum öruggum sigri í höfn. Lokatölur voru 91-110.

Jaxson Baker var stigahæstur í liði Ármanns með 27 stig og Kristófer Breki skoraði 24 stig á aðeins 17 mínútum. Frosti var með 17 og Arnaldur Grímsson 15 stig. Ármann var aftur með 6 leikmenn með 10 stig eða meira og sýndu að þeir hafa mikla breidd sem erfitt er að ráða við.

Hjá Selfossi var Follie Bogan með 24 stig og Vojtéhc Novák skoraði 12 og tók 11 fráköst og Skarphéðinn Árni skoraði 13 stig. 

Þriðji leikur einvígisins verður næsta föstudag í Laugardalshöllinni klukkan 19:15.