Líf og fjör á Silfurleikum ÍR

Líf og fjör á Silfurleikum ÍR

Silfurleikar ÍR voru haldnir í Laugardalshöll um liðna helgi og Ármenningar mættu ákveðnir til leiks. Mörg persónuleg met voru slegin og þónokkuð mörg náðu alla leið á verðlaunapallinn.

Má þar nefna Halldór Kosse Ange Tryggvason sem vann 60m hlaup pilta í 12 ára flokki á tímanum 8,57 sek. sem var bæting hjá honum. Ari Andrey Ivansson Shelykh endaði í 3. sæti í þrístökki 12 ára pilta með stökki upp á 9,33m. Hildur María Magnúsdóttir hljóp 60m á 9,00 sek. sléttar og endaði þar með í 3. sæti í 12 ára flokki stúlkna. Hún tók hins vegar 2. sætið í þrístökki.

Úlfur Martino Solimene tók 3. sætið í 60m grind hjá piltum 13 ára og hljóp á 10,87 sek. sem var bæting hjá honum. Kolbeinn Þorleifsson og Bjarni Jóhann Gunnarsson tóku 1. sætið í 600m annars vegar og 800m hlaupi hins vegar í flokki 14 ára pilta og Bjarni Jóhann náði einnig 2. sæti í 60m grindarhlaupi og 3. sæti í kúluvarpi, bæði með nýju persónulegu meti.

Arnar Logi Henningsson hljóp 60m á 7,64 sek. og tók þar með 1. sætið í flokki 15 ára pilta og Styrmir Tryggvason náði 2. sæti í hástökki í sama flokki með stökki upp á 1,65m. Hann lenti einnig í 3. sæti í kúluvarpi og Óskar Jóhannsson gerði það sama í þrístökki og bætti sig um leið. Herdís Arna Úlfarsdóttir varpaði kúluna 10,31m og dugði það í 3. sæti í flokki 15 ára stúlkna.