Frábær sigur í Stykkishólmi
Meistaraflokkur karla sótti frábæran sigur í Stykkishólm í kvöld. Ármann náði forystu snemma í leiknum og héldu henni í gegnum leikinn þrátt fyrir nokkur góð áhlaup heimamanna. Ármann byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og virtust ætla að skilja Snæfell eftir en heimamenn gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn aftur fyrir lok leikhlutans. Í fjórða leikhluta náði Ármann aftur góðu forskoti og í þetta sinn gáfu þeir það ekki eftir. Lokatölur leiksins voru 89-103.
Zach Naylor sýndi hvað í honum býr í þessum leik. Hann hitti vel og endaði með 32 stig og 5 fráköst. Arnaldur Grímsson átti annan góðan leik með 24 stig og 13 fráköst og Cedric Bowen skoraði 22 stig og tók 7 fráköst í leiknum. Aðrir leikmenn spiluðu einnig vel í leiknum og það má segja að fyrstu tveir leikir tímabilsins lofi góðu.
Hjá Snæfelli var það Khalyl Jevon Waters sem var stigahæstur með 26 stig og Alejandro Rupiera Raposo skoraði 23 stig. Snæfell er með flottan hóp og byrjuðu tímabilið á flottum útisigri gegn Fjölni svo að Ármenningar eru ánægðir með að hafa sótt þennan sigur í Hólminn.
Næsti leikur verður á miðvikudaginn í Laugardalshöllinn gegn KV. Þar má búast við hörkuleik en strákarnir í KV sigruðu Fjölni í kvöld og eru með sterkan kjarna leikmanna sem margir hafa leikið fyrir Ármann á árum áður. Það verður því mjög spennandi að mæta í Höllina á miðvikudaginn. Leikurinn hefst klukkan 18:45.