Skemmtileg keppnisferð til Lloret de Mar

Skemmtileg keppnisferð til Lloret de Mar

2010 árgangur körfuknattleiksdeildar Ármanns fór í skemmtilega keppnisferð til Lloret de Mar síðustu vikuna í júní. Þau tóku þátt í Eurocup móti sem er haldið árlega þar. Lloret de Mar er strandbær stutt frá Barcelona og þar er nóg um að vera á milli leikja. Mótið er alþjóðlegt mót og lið koma frá ýmsum löndum til að taka þátt. Lið Ármanns léku við lið frá Spáni, Tyrklandi, Íslandi, Frakklandi og Palestínu á þessu móti. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar unnu alla leikina á mótinu og urðu meistarar í sínum aldursflokki og strákarnir unnu öll liðin nema eitt og urðu því í öðru sæti.

2010 stelpurnar unnu mótið

Lokastaðan á mótinu

 

Krakkarnir skemmtu sér konunglega og gátu brallað ýmislegt á milli leikja eins og að fara í vatnsrennibrautagarð, go kart, tívolí, ströndina og margt fleira. Við vorum svo heppin að hafa frábæra fararstjóra með okkur í ferðinni. Þær voru með allt á hreinu og stóðu sig frábærlega í að skipuleggja skemmtilega dagskrá og aðstoða við leikina. Þar voru þær með drykki, blævængi, úðabrúsa, sjúkratösku og fleira svo að ekkert skorti á meðan keppni stóð.

Strákarnir að hlusta á þjóðsönginn fyrir úrslitaleikinn.

Það var virkilega gaman að ferðast með þessum hópi og voru krakkarnir til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Þau stóðu sig vel í að hvetja þegar þau voru ekki að spila og kynntust leikmönnum úr hinum liðunum líka. Þau voru mjög öflug í leikjunum þrátt fyrir mikinn hita og framfarir miklar hjá þeim á milli leikja í mótinu sem skilaði svona flottum árangri. Það verður gaman að fylgjast með þessum flottu krökkum áfram og ljóst að framtíðin er björt hjá Ármanni.