Íslandsmeistaramót unglinga og master keppenda 2023

Íslandsmeistaramót unglinga og master keppenda 2023

Þann 18. nóvember fór ÍM unglinga og master keppenda fram á Akranesi. Mótið var fjölmennasta mót sem haldið hefur verið á Íslandi til þessa og greinilegt að mjög mikill vöxtur er í áhuga á kraftlyftingum. Við Ármenningar mættum með 16 keppendur á mótið, 4 keppendur í master flokkum og 12 í junior og subjunior. EInnig sendum við á mótið fjölda aðstoðarmanna, dómara og stangarmenn til að aðstoða við mótið. Vegna fjölmennis var keppt á tveimur pöllum. Mótið var einstaklega skemmtilegt og gífurlega góður andi hjá öllum keppendum. Mótshaldarar fá góðar þakkir fyrir flott mót.

Helstu niðurstöður voru:

Ragnar Ingi Ragnarsson (08) keppti á sínu fyrsta móti og átti frábært mót. Hann keppir í -66 kg flokki subjunior og varð hann í fyrsta sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 160 kg, bekkpressa 110,5 kg og réttstöðulyfta 203 kg. Samanlagður árangur 473,5 kg. Ragnar Ingi tvíbætti Íslandsmetið í bekkpressu og tók Íslandsmetið í réttstöðulyftu og samanlögðum árangri. Stórkostleg byrjun á lyftingaferlinum hjá Ragnari og við óskum honum til hamingju með öll Íslandsmetin.

Grímur Nói Pétursson (08) keppti einnig á sínu fyrsta móti. Hann keppir í -74 kg flokki sub junior og varð í 3.sæti í flokknum. Hann átti stórgott mót með 8 gildar lyftur af 9. Hann tók seríuna: Hnébeygja 115 kg, bekkpressa 90 kg og réttstöðulyfta 150 kg. Samanlagður árangur 355 kg. Frábær árangur á fyrsta móti.

Andrés Þór Jóhannsson (06) byrjaði að keppa á þessu ári. Hann keppir í -83 kg flokki sub junior og varð í 2.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 160 kg, bekkpressa 97,5 kg og réttstöðulyfta 200 kg. Samanlagður árangur 457,5 kg. Hann hefur bætt sig um 82,5 kg á árinu sem eru magnaðar bætingar. Frábært ár hjá Andrési.

Ívar Máni Hrannarsson (05) keppti í fyrsta skipti í október. Hann keppir í -83 kg flokki sub junior og varð í 4.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 120 kg, bekkpressa 92,5 kg, réttstöðulyfta 152,5 kg. Samanlagður árangur 365 kg. Hann bætti sig um 5 kg milli móta á þessum stutta tíma. Mjög flott mót hjá Ívari.

Logi Snær Gunnarsson (05) er orðinn þrautreyndur keppnismaður í kraftlyftingum. Þetta var síðasta mótið hans í sub junior því eftir áramót fer hann í junior flokk. Hann keppir í -93 kg flokki og varð hann í 1.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 190 kg, bekkpressa 112,5 og réttstöðulyfta 252,5 kg. Samanlagður árangur 555 kg. Logi tvíbætti eigið Íslandsmet í réttstöðulyftu á mótinu. Frábær árangur og við óskum Loga til hamingju með nýtt Íslandsmet.

Aðalsteinn Þorsteinsson (05) keppti einnig á sínu fyrsta móti. Hann keppir í -93 kg flokki sub junior og endaði í 3.sæti í flokknum. Hann tók seríuna. Hnébeygja 157,5, bekkpressa 87,5 kg og réttstöðulyfta 185 kg. Samanlagður árangur 430 kg. Mjög góður árangur á fyrsta móti.

Kristófer Máni Sveinsson (06) byrjaði að keppa á þessu ári. Hann keppir í -93 kg flokki sub junior og endaði í 4.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 140 kg, bekkpressa 95 kg, réttstöðulyfta 180 kg. Samanlagður árangur 415 kg. Kristófer hefur bætt sig um 75 kg árinu sem er stórgóður árangur hjá honum.

Þórður Skjaldberg (06) hafði keppt í nákvæmlega ár uppá dag þegar mótið fór fram. Hann keppir í -105 kg flokki sub junior og varð í 1.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 185 kg, bekkpressa 125 kg og réttstöðulyfta 212,5 kg. Samanlagður árangur 522,5 kg. Sigurinn hafðist á síðustu lyftunni og var því spennan mikil. Þórður hefur bætt sig um 117,5 kg á árinu sem eru gríðarlegar bætingar. Frábær árangur hjá Þórði.

Kolbeinn Óli Gunnarsson (06) keppti í fyrsta skipti í október. Hann keppir í -105 kg flokki sub junior og varð í 3. sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 165 kg, bekkpressa 110 kg og réttstöðulyfta 190 kg. Samanlagður árangur 465 kg. Kolbeinn bætti sig um 10 kg á milli móta. Mjög góður árangur hjá Kolbeini.

Gunnar Pálmi Snorrason (05) byrjaði að keppa seint á síðasta ári. Hann keppir í -120 kg flokki sub junior og varð í 1.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 200 kg, bekkpressa 110 kg og réttstöðulyfta 200 kg. Samanlagður árangur 510 kg. Virkilega vel gert hjá Gunnari Pálma.

Davíð Ingólfur (05) keppti á sínu fyrsta móti. Hann keppir í -120 kg flokki sub junior. Hann var svo óheppinn að fá allar hnébeygjurnar sínar dæmdar ógildar vegna tæknilegra mistaka. Hann lét það þó ekki stoppa sig frá því að ljúka mótinu í hinum lyftunum. Þar tók hann: bekkpressa 90 kg og réttstöðulyfta 200 kg. Það er fullt inni hjá honum fyrir næstu mót.

Þórunn Brynja Jónasdóttir (74) keppti á sínu síðasta master 1 móti í -84 kg flokki. Hún endaði í öðru sæti með seríuna: Hnébeygja 130 kg, bekkpressa 82,5 kg og réttstöðulyfta 145 kg. Samanlagður árangur 357,5 kg sem er sama þyngd á keppandinn sem varð í 1.sæti en sá keppandi var með lægri líkamsþyngd.

Björn Margeirsson (79) er með langa og góða keppnissögu. Hann keppti að þessu sinni í -83 kg flokki og varð í 1.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 193 kg, bekkpressa 117,5 kg og réttstöðulyfta 190 kg. Samanlagður árangur 500,5 kg. Allar hnébeygjurnar sem hann tók voru Íslandsmet, einnig setti hann Íslandsmet í bekkpressu og samanlögðum árangri. Til hamingju Björn með Íslandsmetin.

Gunnar Sigurðsson (81) keppti á sínu fyrsta móti. Hann keppti í -83 kg flokki og varð í 2.sæti í flokknum. Hann tók seríuna: Hnébeygja 180 kg, bekkpressa 110 kg og réttstöðulyfta 205 kg. Samanlagður árangur 495 kg. Allar réttstöðulyfturnar sem hann tók voru Íslandsmet. Frábær árangur á fyrsta móti og til hamingju með Íslandsmetin Gunnar.

Edda Ríkharðsdóttir (55) keppti á sínu öðru móti. Hún keppir í -84 kg flokki, master 3. Hún varð í 1.sæti í flokknum með seríuna: Hnébeygja 50 kg, bekkpressa 35 kg og réttstöðulyfta 90 kg. Samanlagður árangur 175 kg. 20 kg bæting á milli móta hjá Eddu. Frábær árangur hjá henni.

Allir keppendur Ármanns voru félaginu til sóma eins og alltaf þegar okkar fólk mætir til keppni. Frábært ár hjá okkar fólki.