Ármenningar stóðu vaktina á MÍ um helgina
Það kom í hlut Ármenninga að sjá um að halda MÍ fullorðinna utanhúss í ár í samstarfi við FRÍ. Mótið var haldið á ÍR-vellinum og fór fram við bestu aðstæður núna um helgina 28.-30. júlí. Margir sjálfboðaliðar lögðu sitt af mörkum til þess að mótið gæti farið sómasamlega fram og góð stemning var á vellinum þar sem mörg met voru slegin.
Keppendur frá Ármanni náðu góðum árangri. Má þar nefna að Hermann Þór Ragnarsson naði 2. sæti í 400m hlaupi karla og hljóp á tímanum 50,93 sek. sem var líka persónulegt met hjá honum. Hann var einnig í sveit Ármanns í 4x100m boðhlaupi ásamt þeim Viktori Loga Péturssyni, Tómasi Orra Gíslasyni og Þorsteini Péturssyni en sveitin lenti í 3. sæti á tímanum 44,80 sek.
Hekla Magnúsdóttir (lengst til vinstri á myndinni) náði sæti í 100m úrslitahlaupinu með tímanum 12,96 sek. en þurfti því miður að hætta keppni vegna meiðsla eftir grindahlaup.